Kál hvers konar er hollur og sterkur bandamaður þarmaflórunnar. Hrásalat er meðlæti sem byggir á káli. Flestir eru vanir því með hvítkáli. En rauðkál er ekki síður spennandi kostur og setur sterkan lit á matardiskinn.
Uppskrift:
250 gr rauðkál
2 gulrætur, u.þ.b. 125 gr
Agúrka, u.þ.b.100 gr
1-2 sneiðar ananas, niðursoðinn í eigin safa (t.d. Dole)
Sósa:
3 msk majones
3 msk súrmjólk/AB mjólk/jógúrt eða 1 1/2 msk sýrður rjómi
1 tsk sinnep (án viðbætts sykurs)
1 msk þurrkuð steinselja
Lime pipar
Aðferð:
- Blanda saman öllum efnum sósunnar í stóra skál sem getur rúmað allt salatið.
- Fræhreinsa agúrkuna, rífa gróft á rifjárni.
- Flysja gulræturnar, rífa gróft á rifjárni.
- Saxa ananasinn örsmátt eða nota ananasmauk.
- Skera grófustu stilkana af blöðum rauðkálsins, saxa rauðkálið smátt eða skera í örþunnar ræmur.
- Hræra grænmetið saman við sósuna.
- Bæta við ananassafa úr dósinni ef óskað er eftir meira sætubragði.
Ábendingar:
Ég nota matvinnsluvél til að saxa, rífa og brytja það sem fer í hrásalatið. Það hlífir mér við mikilli handavinnu.
Majones án viðbætts sykurs virðist mér með öllu ófáanlegt. Viðbætti sykurinn er mjög lítill í Gunnars majonesi svo ég hef notað það og lít þá á sykurinn eins og hvert annað krydd. Ef marka má innihaldslýsingu á Gunnars majonesi er viðbætti sykurinn svo lítill að ég skil ekki hvers vegna hann er notaður því hann hefur varla nokkur áhrif á bragð eða áferð. Viðbættur sykur er hálfgerður aðskotahlutur í majonesi því í uppskriftum af því hef ég aldrei séð viðbættan sykur. Ég skil því enn síður hvers vegna framleiðandinn notar hann. Ég er farin að búa til majones sjálf til að geta betur stýrt því hvaða olíur ég borða auk þess sem ég losna þá alveg við viðbætta sykurinn þar.