Þessi fiskréttur byggir á formúlu sem er þó engin geimsvísindi. Svona matreiðsla á fiski hefur með tímanum náð efri hæðum fjölbreytileikans hjá mér því formúlan fyrrnefnda byggir á því sem til er í skápunum hverju sinni.
Uppskrift fyrir fjóra
Innihald
600 gr þorskur
10 cm af sellerýstöngli
5 cm af græna hluta blaðlauks, skorið þvert á öll blöðin.
2 sólþurrkaðir tómatar
1/4 tsk Piri Piri kryddblanda (frá Pottagöldrum)
1 msk Mixed Herbs (frá Schwartz: timían, steinselja, majoram)
1/4 tsk fínt salt
1/2 tsk Dijon sinnep
1 1/2 msk sýrður rjómi
1 1/2 msk majónes
Aðferð:
- Brytja sellerý, blaðlauk og sólþurrkaða tómata smátt. Setja í stóra skál.
- Setja kryddin, sinnepið, sýrða rjómann og majónesið í skálina og hræra öllu vel saman.
- Skera fiskinn í litla bita (u.þ.b á stærð við tvo munnbita hver bitai) og blanda saman við hin efnin í skálinni.
- Allt sett í smurt eldfast mót.
- Ofnbakað í opnu mótinu við 175°C í 30 mínútur.
Það má gera réttinn bragðsterkari með því að auka magn Piri Piri í kryddblöndunni. Ég gerði þennan fyrst með hálfri teskeið af kryddinu og hann varð heldur sterkur fyrir minn smekk enda er ég ekki mikið fyrir eldpipar almennt.
Sósan er ekki mikil, rétt nær að festa grænmetið og kryddið við fiskinn. Fiskurinn lætur frá sér safa við eldun svo úr verður mátulega mikið útálát.
Að þessu sinni var meðlætið soðin hrísgrjón, soðnir brokkólístilkar og ferskt salat úr kínakáli, Lambhagasalati, papriku og gulrófu.