2. ágúst 2022

Kaldar sósur, salatsósur, samlokusósur

Kaldar sósur með mat, á brauð eða yfir salat byggja alltaf á sama grunni hjá mér. Þar sem ég geri þær ekki eftir uppskrift verður sama sósan aldrei eins. Stundum naga ég mig í handarbökin yfir því. Svo hér kemur ein sem ég var að búa til fyrir samlokur.

Innihaldið byggir alltaf á majonesi og sýrðum rjóma og yfirleitt bæti ég alltaf við sinnepi.

Þetta er samt ekki nóg. Það þarf karakter og hann næst fram með því að nota sitt lítið af hverju.

 


Sinnepssósa:

1 1/2 msk majones

1 1/2 msk sýrður rjómi

1 tsk sinnep

1 msk ananassafi (safi frá niðursoðnum ananas í eigin safa frá Dole, án  viðbætts sykur)

Kryddað með þurrkaðri steinselju, hvítlauksdufti og lime pipar.

Stundum nota ég jógúrt eða AB mjólk í stað sýrða rjómans. Það breytir áferð og bragði auk þess sem sósan verður þynnri. Stundum vill maður einmitt þynnri sósu eða rjómakenndri áferð, t.d. á salat. Með jógúrt og AB mjólk fær maður líka góðgerla í kaupbæti.

Gráðaostssósa: Minnka sinnepið, nota smá hvítlauksduft og hræra síðan mulinn gráðaost saman við. Smá sæta fyllir bragðið á móti söltum ostinum. Þá hentar vel að nota Sukrin Gold Fiber Syrup eða Nick's Fiber Syrup with honey flavour eða ananassafa.

Barbikjúsósa: Blandan af majonesi, sýrðum rjóma og 1/4 tsk af sinnepi. Bæta við 1 msk af sykurlausri tómatsósu, t.d. Felix með stevíu. Krydda með með reyktu paprikudufti, hvítlauksdufti, möluðum cayennepipar eða chili.