12. ágúst 2022

Bollakökur í örbylgju

Stundum langar mann í köku. Núna! Þá er upplagt að skella þessum í örbylgjuofninn. Hér eru þær með bláberjum sem ég kaupi frosin. Athugið að oft eru frosnir ávextir með viðbættum sykri en það finnast vörumerki sem eru án hans. Kíkið á innihaldslýsingu pakkningarinnar.

Uppskrift - 2 bollakökur

Innihald:

2 msk möndlumjöl
1 msk malað kókosmjöl
1 msk kornótt sætuefni
¼ tsk lyftiduft
1 egg
1 tsk vanilluessens
1 msk bráðið smjör

Aðferð:

  1. Bræða smjörið og láta kólna aðeins.
  2. Blanda þurrefnum saman í skál.
  3. Þeyta eggið.
  4. Hræra smjöri og vanillu saman við eggið. 
  5. Hræra þurrefnum saman við egghræruna.
  6. Setja í smurðar bökunarskálar sem mega fara í örbylgjuofn.
  7. Setja í örbylgjuofn á 900W í 1 mínútu.
  8. Látið kólna í skálunum.

Ég setti 5-6 þiðnuð bláber í holu í miðju hvorrar köku áður ég geislaði þær í örbylgjuofninum. Svona litu þær út eftir baksturinn. Gott er að gæða sér á þessum kökum með þeyttum rjóma.


Sætuefnið sem ég nota hér er frá Good Good, "Granulated Sweet Like Sugar" sem er blanda af erythritoli og stevíu.


Uppskriftina fann ég hjá SugarFree Londoner.