10. ágúst 2022

Brúnkur úr kjúklingabaunum - Brownies


Sætubitar eiga sinn stað og stund. Það hefur verið smá höfuðverkur hvernig ég leysi það án viðbætts sykurs að hafa sætubita í síðdegisteboði (e. afternoon tea). Ég hef bakað með sætuefnum og það er allur gangur á því hversu vel mér líkar útkoman. Þetta kökudeig eða baunamauk réttara sagt er prýðilegt hrátt og gætur því líka vel gengið sem súkkulaðismurálegg eða krem. Eða án dulargervis sem súkkulaðihummus.

Uppskrift

Innihald:

1 dós kjúklingabaunir (240 gr af baunum án safa)
1/2 bolli mjólk eða döðluvatn (sjá aðferð)
1/3 bolli kakó
3/4 bolli döðlur
1 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Setja döðlurnar í litla skál og hella sjóðandi vatni yfir en ekki meira en svo að döðlurnar blotni allar. Látið liggja í bleyti 2 mínútur.
  2. Hella vökvanum af kjúklingabaununum.
  3. Mauka baunirnar í mylsnu í matvinnsluvél eða blandara.
  4. Hella vatninu af döðlunum. Geyma vatnið eða nota í stað mjólkur í uppskriftinni.
  5. Setja döðlurnar og öll hin innihaldsefnin í matvinnsluvélina og hakka saman þar til áferðin verður mjúk.
  6. Setja deigið í formkökumót sem klætt er með bökunarpappír. Það má gjarnan smyrja pappírinn létt áður.
  7. Bakað í ofni við 180°C í 25-30 mínútur.
  8. Látið kólna alveg áður en kakan er skorin í hæfilega brúnkubita.

Það er má gjarnan skreyta kökurnar með því að strá yfir þær kókosmjöli eða möndlumjöli. Til að fá enn sterkara súkkulaðibragð er hægt að dusta kakói yfir kökurnar. Geymið kökurnar í kæli.

Geymið endilega vökvann af döðlunum og notið hann sem sætuefni í aðra rétti, t.d. í salatsósur og drykki, því vatnið er dísætt. Munið bara að nú er hreinn frúktósi í vatninu og telst því í raun viðbættur sykur þegar frúktósinn hefur verið aðskilinn úr döðlunum. Það er hentugt að frysta döðluvatnið í klakamóti og setja klakana síðan í frystipoka. Þá er handhægt að grípa stakan mola þegar þörfin kallar. Ég gæti sem best hugsað mér að gera sætt með döðluvatni þegar ég fæ mér heitt kakó sem er eiginlega minn huggunardrykkur við kertaljós á gráblautum vetrardegi.

Uppskriftina fann ég hér hjá Recetas de Gri. Þetta er myndband og þar getið þið séð handtökin.