9. ágúst 2022

Rauðrófuhummus

 

Rauðrófur eru í tísku, skilgreindar sem ofurfæði. Látum það liggja á milli hluta en höldum á lofti því sem vitað er, að rauðrófur eru næringarrríkar og hollar, að hægt er að matreiða þær á ýmsa vegu og leggja til fallegan lit á matardiskinn. Í kaupbæti eru þær ódýrar.

Hummus er líka í tísku. Það skemmtilega er að hægt er að gera alls konar útgáfur af hummus með mismunandi viðbótarhráefnum. Einnig er hægt að gera hummus úr öðrum baunategundum en kjúklingabaunum enda þýðir orðið hummus bara "baunastappa".

Uppskrift

Innihald:

1 meðalstór rauðrófa
1 dós kjúklingabaunir
2-4 msk tahini - sesamsmjör
1 hvítlauksgeiri
1/2 tsk salt
Sítrónusafi úr hálfri sítrónu
1-2 msk olívuolía
Ísmolar, 2-4 stk

Aðferð:

  1. Sjóða rauðrófuna: Bursta varlega af rófunni undir rennandi vatni til að hreinsa hana og setja svo í pott með vatni sem nær 2 cm yfir rauðrófuna. Sjóða í 20-30 mínútur uns rófan er orðin mjúk. Taka rauðrófuna úr vatnu og láta kólna nokkur. Hýða flusið af rauðrófunni undir rennandi vatni. Gott að vera í gúmmíhönskum svo hendurnar litist ekki af safanum. Brytja rauðrófuna gróft.
  2. Hella safanum af kjúklingabaununum. 
  3. Setja í matvinnusluvél/blandara: rauðrófu, kjúklingabaunir, 2 msk tahini, hvítlaukur, salt, sítrónusafi, olívuolía.
  4. Mauka allt saman. Bæta við ísmola. Þegar hann er uppleystur þá bæta við öðrum ísmola.
  5. Smakka og bæta við tahini og ólívuolíu ef maður vill. 
Matvinnusluvélin er látin ganga uns áferðin er orðin eftir óskum. Til að þynna maukið meira er ísmolum bætt við. Ísmolar gegna því hlutverki umfram það að nota vatn að halda maukinu kældu á meðan það er unnið því vélin hitar maukið og breytir þannig bragðinu.

Uppskriftin er héðan, frá Refika's Kitchen. Þetta er myndband og þar getið þið séð handtökin.

-----


Hummus samkvæmt hefðinni inniheldur ekki viðbættan sykur. Þó er það svo merkilegur andskoti að allt tilbúið hummus sem ég hef fundið í búðum hér inniheldur viðbættan sykur. Ástæðan getur ekki verið önnur en sú að fá neytandann til að falla fyrir bragðinu og kaupa vöruna aftur því sykur er bragðbætir þó lítið sé notað af honum. Auðvitað á maður að búa hummus til sjálfur. Það er ekki flókið og ekki dýrara en að kaupa það tilbúið. Hængurinn er þó sá að það þarf að nota matvinnusluvél eða blandara eða öflugan töfrasprota.