31. ágúst 2022

Kartöfluflögur - uppskrift

Verksmiðjuframleiddar kartöfluflögur innihalda yfirleitt viðbættan sykur. Ef þær eru eingöngu með salti er oftast hægt að finna slíkar án viðbætts sykur í flestum verslunum. Ég borða saltaðar flögur til dæmis frá Lays, Maruud og Kims. Kartöfluflögur ætti ekki að borða oft og ekki mikið af þeim. Vandamálið sem ég glími við er hversu mikið er nógu lítið. Til að átta sig á magni getur verið sniðugt að prófa að útbúa þær sjálfur frá grunni í örbylgjuofninum. Þá opnast líka ótakmarkaðir möguleikar á að bragðbæta kartöflurnar með því sem hugurinn girnist án þess að bæta við sykri. Mér finnst örbylgjusteiktar kartöfluflögur mjög góðar. Efst í færslunni er myndir af flögunum mínum.

Kokkurinn John hefur fullkomnað þessa matargerð í örbylgjuofni. Hér er myndband þar sem hann kennir handbrögðin.

 
 
Hér er uppskriftin uppskrifuð hjá John.
 
Í mínum örbylgjuofni er mátulegt að geisla þær á 600W í þrjár til fjórar mínútur Ég sný flögunum eftir fyrstu tvær mínútunar og sé svo til hversu mikinn tíma þær þurfa eftir það. Hver og einn verður að prófa sig áfram með sinn örbylgjuofn.

29. ágúst 2022

Pesto


Þetta pestó frá danska fyrirtækinu Urtekram er án viðbætts sykur. Auðvitað, hugsar þú kannski, en nei, ekki auðvitað. Sumir framleiðendur setja sykur í pestóið. Þetta keypti ég í Krónunni og kostaði það 459 krónur (18.8.2022).

25. ágúst 2022

Fiskur í ofni - 1

Þessi fiskréttur byggir á formúlu sem er þó engin geimsvísindi. Svona matreiðsla á fiski hefur með tímanum náð efri hæðum fjölbreytileikans hjá mér því formúlan fyrrnefnda byggir á því sem til er í skápunum hverju sinni.

Uppskrift fyrir fjóra

Innihald

600 gr þorskur
10 cm af sellerýstöngli
5 cm af græna hluta blaðlauks, skorið þvert á öll blöðin.
2 sólþurrkaðir tómatar
1/4 tsk Piri Piri kryddblanda (frá Pottagöldrum)
1 msk Mixed Herbs (frá Schwartz: timían, steinselja, majoram)
1/4 tsk fínt salt
1/2 tsk Dijon sinnep
1 1/2 msk sýrður rjómi
1 1/2 msk majónes

Aðferð:

  1. Brytja sellerý, blaðlauk og sólþurrkaða tómata smátt. Setja í stóra skál.
  2. Setja kryddin, sinnepið, sýrða rjómann og majónesið í skálina og hræra öllu vel saman.
  3. Skera fiskinn í litla bita (u.þ.b á stærð við tvo munnbita hver bitai) og blanda saman við hin efnin í skálinni.
  4. Allt sett í smurt eldfast mót.
  5. Ofnbakað í opnu mótinu við 175°C í 30 mínútur.

Það má gera réttinn bragðsterkari með því að auka magn Piri Piri í kryddblöndunni. Ég gerði þennan fyrst með hálfri teskeið af kryddinu og hann varð heldur sterkur fyrir minn smekk enda er ég ekki mikið fyrir eldpipar almennt.

Sósan er ekki mikil, rétt nær að festa grænmetið og kryddið við fiskinn. Fiskurinn lætur frá sér safa við eldun svo úr verður mátulega mikið útálát.

Að þessu sinni var meðlætið soðin hrísgrjón, soðnir brokkólístilkar og ferskt salat úr kínakáli, Lambhagasalati, papriku og gulrófu.



24. ágúst 2022

Sólþurrkaðir tómatar

Ótrúlegt en satt, þá er oft settur sykur í verksmiðjuframleidda sólþurrkaða tómata. Íslandsvinurinn Jamie Oliver gerir það þó ekki og bjargar þar með deginum hjá mér. Mér finnst sólþurrkaðir tómatar góðir til að gera bragðflóru ýmissa rétta flóknari og dýpri án þess að breyta lit matarins. Það er engin ástæða til að spara krúsina lengi því þeir geymast ekki von úr viti. Því finnst mér sniðugt að nota þá í heita rétti, ferskt salat, í brauðbakstur, í hummus og auðvitað í pastarétti.

19. ágúst 2022

Salsa



 Chunky Salsa frá Santa Maria er án viðbætts sykur. Hægt er að velja um þrjá bragðstyrkleika.

Þessar tortillur frá Santa Maria eru án viðbætts sykurs. Tortilla Original heita þær.

Vörurnar hef ég fengið í Fjarðarkaupum, Hagkaupum og Bónus.

 

 

Tortillur

Þessar tortillur frá Santa Maria, Tortilla Original, eru án viðbætts sykurs.


Sama fyrirtæki er einnig með salsa án viðbætts sykurs, Chunky Salsa. Hægt er að velja um þrjá bragðstyrkleika. Þessar vörur hef ég fengið í Fjarðarkaupum, Hagkaupum og Bónus.


12. ágúst 2022

Bollakökur í örbylgju

Stundum langar mann í köku. Núna! Þá er upplagt að skella þessum í örbylgjuofninn. Hér eru þær með bláberjum sem ég kaupi frosin. Athugið að oft eru frosnir ávextir með viðbættum sykri en það finnast vörumerki sem eru án hans. Kíkið á innihaldslýsingu pakkningarinnar.

Uppskrift - 2 bollakökur

Innihald:

2 msk möndlumjöl
1 msk malað kókosmjöl
1 msk kornótt sætuefni
¼ tsk lyftiduft
1 egg
1 tsk vanilluessens
1 msk bráðið smjör

Aðferð:

  1. Bræða smjörið og láta kólna aðeins.
  2. Blanda þurrefnum saman í skál.
  3. Þeyta eggið.
  4. Hræra smjöri og vanillu saman við eggið. 
  5. Hræra þurrefnum saman við egghræruna.
  6. Setja í smurðar bökunarskálar sem mega fara í örbylgjuofn.
  7. Setja í örbylgjuofn á 900W í 1 mínútu.
  8. Látið kólna í skálunum.

Ég setti 5-6 þiðnuð bláber í holu í miðju hvorrar köku áður ég geislaði þær í örbylgjuofninum. Svona litu þær út eftir baksturinn. Gott er að gæða sér á þessum kökum með þeyttum rjóma.


Sætuefnið sem ég nota hér er frá Good Good, "Granulated Sweet Like Sugar" sem er blanda af erythritoli og stevíu.


Uppskriftina fann ég hjá SugarFree Londoner.

10. ágúst 2022

Brúnkur úr kjúklingabaunum - Brownies


Sætubitar eiga sinn stað og stund. Það hefur verið smá höfuðverkur hvernig ég leysi það án viðbætts sykurs að hafa sætubita í síðdegisteboði (e. afternoon tea). Ég hef bakað með sætuefnum og það er allur gangur á því hversu vel mér líkar útkoman. Þetta kökudeig eða baunamauk réttara sagt er prýðilegt hrátt og gætur því líka vel gengið sem súkkulaðismurálegg eða krem. Eða án dulargervis sem súkkulaðihummus.

Uppskrift

Innihald:

1 dós kjúklingabaunir (240 gr af baunum án safa)
1/2 bolli mjólk eða döðluvatn (sjá aðferð)
1/3 bolli kakó
3/4 bolli döðlur
1 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Setja döðlurnar í litla skál og hella sjóðandi vatni yfir en ekki meira en svo að döðlurnar blotni allar. Látið liggja í bleyti 2 mínútur.
  2. Hella vökvanum af kjúklingabaununum.
  3. Mauka baunirnar í mylsnu í matvinnsluvél eða blandara.
  4. Hella vatninu af döðlunum. Geyma vatnið eða nota í stað mjólkur í uppskriftinni.
  5. Setja döðlurnar og öll hin innihaldsefnin í matvinnsluvélina og hakka saman þar til áferðin verður mjúk.
  6. Setja deigið í formkökumót sem klætt er með bökunarpappír. Það má gjarnan smyrja pappírinn létt áður.
  7. Bakað í ofni við 180°C í 25-30 mínútur.
  8. Látið kólna alveg áður en kakan er skorin í hæfilega brúnkubita.

Það er má gjarnan skreyta kökurnar með því að strá yfir þær kókosmjöli eða möndlumjöli. Til að fá enn sterkara súkkulaðibragð er hægt að dusta kakói yfir kökurnar. Geymið kökurnar í kæli.

Geymið endilega vökvann af döðlunum og notið hann sem sætuefni í aðra rétti, t.d. í salatsósur og drykki, því vatnið er dísætt. Munið bara að nú er hreinn frúktósi í vatninu og telst því í raun viðbættur sykur þegar frúktósinn hefur verið aðskilinn úr döðlunum. Það er hentugt að frysta döðluvatnið í klakamóti og setja klakana síðan í frystipoka. Þá er handhægt að grípa stakan mola þegar þörfin kallar. Ég gæti sem best hugsað mér að gera sætt með döðluvatni þegar ég fæ mér heitt kakó sem er eiginlega minn huggunardrykkur við kertaljós á gráblautum vetrardegi.

Uppskriftina fann ég hér hjá Recetas de Gri. Þetta er myndband og þar getið þið séð handtökin.

9. ágúst 2022

Rauðrófuhummus

 

Rauðrófur eru í tísku, skilgreindar sem ofurfæði. Látum það liggja á milli hluta en höldum á lofti því sem vitað er, að rauðrófur eru næringarrríkar og hollar, að hægt er að matreiða þær á ýmsa vegu og leggja til fallegan lit á matardiskinn. Í kaupbæti eru þær ódýrar.

Hummus er líka í tísku. Það skemmtilega er að hægt er að gera alls konar útgáfur af hummus með mismunandi viðbótarhráefnum. Einnig er hægt að gera hummus úr öðrum baunategundum en kjúklingabaunum enda þýðir orðið hummus bara "baunastappa".

Uppskrift

Innihald:

1 meðalstór rauðrófa
1 dós kjúklingabaunir
2-4 msk tahini - sesamsmjör
1 hvítlauksgeiri
1/2 tsk salt
Sítrónusafi úr hálfri sítrónu
1-2 msk olívuolía
Ísmolar, 2-4 stk

Aðferð:

  1. Sjóða rauðrófuna: Bursta varlega af rófunni undir rennandi vatni til að hreinsa hana og setja svo í pott með vatni sem nær 2 cm yfir rauðrófuna. Sjóða í 20-30 mínútur uns rófan er orðin mjúk. Taka rauðrófuna úr vatnu og láta kólna nokkur. Hýða flusið af rauðrófunni undir rennandi vatni. Gott að vera í gúmmíhönskum svo hendurnar litist ekki af safanum. Brytja rauðrófuna gróft.
  2. Hella safanum af kjúklingabaununum. 
  3. Setja í matvinnusluvél/blandara: rauðrófu, kjúklingabaunir, 2 msk tahini, hvítlaukur, salt, sítrónusafi, olívuolía.
  4. Mauka allt saman. Bæta við ísmola. Þegar hann er uppleystur þá bæta við öðrum ísmola.
  5. Smakka og bæta við tahini og ólívuolíu ef maður vill. 
Matvinnusluvélin er látin ganga uns áferðin er orðin eftir óskum. Til að þynna maukið meira er ísmolum bætt við. Ísmolar gegna því hlutverki umfram það að nota vatn að halda maukinu kældu á meðan það er unnið því vélin hitar maukið og breytir þannig bragðinu.

Uppskriftin er héðan, frá Refika's Kitchen. Þetta er myndband og þar getið þið séð handtökin.

-----


Hummus samkvæmt hefðinni inniheldur ekki viðbættan sykur. Þó er það svo merkilegur andskoti að allt tilbúið hummus sem ég hef fundið í búðum hér inniheldur viðbættan sykur. Ástæðan getur ekki verið önnur en sú að fá neytandann til að falla fyrir bragðinu og kaupa vöruna aftur því sykur er bragðbætir þó lítið sé notað af honum. Auðvitað á maður að búa hummus til sjálfur. Það er ekki flókið og ekki dýrara en að kaupa það tilbúið. Hængurinn er þó sá að það þarf að nota matvinnusluvél eða blandara eða öflugan töfrasprota.

2. ágúst 2022

Kaldar sósur, salatsósur, samlokusósur

Kaldar sósur með mat, á brauð eða yfir salat byggja alltaf á sama grunni hjá mér. Þar sem ég geri þær ekki eftir uppskrift verður sama sósan aldrei eins. Stundum naga ég mig í handarbökin yfir því. Svo hér kemur ein sem ég var að búa til fyrir samlokur.

Innihaldið byggir alltaf á majonesi og sýrðum rjóma og yfirleitt bæti ég alltaf við sinnepi.

Þetta er samt ekki nóg. Það þarf karakter og hann næst fram með því að nota sitt lítið af hverju.

 


Sinnepssósa:

1 1/2 msk majones

1 1/2 msk sýrður rjómi

1 tsk sinnep

1 msk ananassafi (safi frá niðursoðnum ananas í eigin safa frá Dole, án  viðbætts sykur)

Kryddað með þurrkaðri steinselju, hvítlauksdufti og lime pipar.

Stundum nota ég jógúrt eða AB mjólk í stað sýrða rjómans. Það breytir áferð og bragði auk þess sem sósan verður þynnri. Stundum vill maður einmitt þynnri sósu eða rjómakenndri áferð, t.d. á salat. Með jógúrt og AB mjólk fær maður líka góðgerla í kaupbæti.

Gráðaostssósa: Minnka sinnepið, nota smá hvítlauksduft og hræra síðan mulinn gráðaost saman við. Smá sæta fyllir bragðið á móti söltum ostinum. Þá hentar vel að nota Sukrin Gold Fiber Syrup eða Nick's Fiber Syrup with honey flavour eða ananassafa.

Barbikjúsósa: Blandan af majonesi, sýrðum rjóma og 1/4 tsk af sinnepi. Bæta við 1 msk af sykurlausri tómatsósu, t.d. Felix með stevíu. Krydda með með reyktu paprikudufti, hvítlauksdufti, möluðum cayennepipar eða chili.

1. ágúst 2022

Hrásalat með rauðkáli - uppskrift

Kál hvers konar er hollur og sterkur bandamaður þarmaflórunnar. Hrásalat er meðlæti sem byggir á káli. Flestir eru vanir því með hvítkáli. En rauðkál er ekki síður spennandi kostur og setur sterkan lit á matardiskinn.

Uppskrift:

250 gr rauðkál

2 gulrætur, u.þ.b. 125 gr

Agúrka, u.þ.b.100 gr

1-2 sneiðar ananas, niðursoðinn í eigin safa (t.d. Dole)

Sósa:

3 msk majones

3 msk súrmjólk/AB mjólk/jógúrt eða 1 1/2 msk sýrður rjómi

1 tsk sinnep (án viðbætts sykurs)

1 msk þurrkuð steinselja

Lime pipar

Aðferð:

  1. Blanda saman öllum efnum sósunnar í stóra skál sem getur rúmað allt salatið.
  2. Fræhreinsa agúrkuna, rífa gróft á rifjárni.
  3. Flysja gulræturnar, rífa gróft á rifjárni.
  4. Saxa ananasinn örsmátt eða nota ananasmauk.
  5. Skera grófustu stilkana af blöðum rauðkálsins, saxa rauðkálið smátt eða skera í örþunnar ræmur.
  6. Hræra grænmetið saman við sósuna.
  7. Bæta við ananassafa úr dósinni ef óskað er eftir meira sætubragði.

Ábendingar:

Ég nota matvinnsluvél til að saxa, rífa og brytja það sem fer í hrásalatið. Það hlífir mér við mikilli handavinnu. 

Majones án viðbætts sykurs virðist mér með öllu ófáanlegt. Viðbætti sykurinn er mjög lítill í Gunnars majonesi svo ég hef notað það og lít þá á sykurinn eins og hvert annað krydd. Ef marka má innihaldslýsingu á Gunnars majonesi er viðbætti sykurinn svo lítill að ég skil ekki hvers vegna hann er notaður því hann hefur varla nokkur áhrif á bragð eða áferð. Viðbættur sykur er hálfgerður aðskotahlutur í majonesi því í uppskriftum af því hef ég aldrei séð viðbættan sykur. Ég skil því enn síður hvers vegna framleiðandinn notar hann. Ég er farin að búa til majones sjálf til að geta betur stýrt því hvaða olíur ég borða auk þess sem ég losna þá alveg við viðbætta sykurinn þar.