Gæðasinnep að mínu mati er dijon sinnep frá Maille sem er franskur framleiðandi. Það inniheldur ekki viðbættan sykur. Þetta sinnep nota ég við majonesgerð, í hrásalat, í salatsósur og kaldar sósur með mat. Ég nota það líka þegar ég útbý kryddsósu út á fisk sem ég ofnbaka.
Sykurlausa sinnepið sem ég nota núna til hversdags er Classic American Mustard frá Missippi Belle, keypt í Krónunni.
Innihaldslýsing á umbúðum: Edik, vatn, sinnepsfræ, salt, túrmerik, paprika. Á vef framleiðanda er auk þess tilgreint hvítlauksduft, krydd og náttúruleg bragðefni. Ég furða mig á að það
þurfi eitthvað að bragðbæta sinnep því það er krydd í eðli sínu. En svona gerast kaupin á Eyrinni. Þetta er bragðgott sinnep, skærgult á litinn og ekki dýrt. Ég nota þetta sinnep til dæmis í samlokur og einnig í kaldar sósur og salatsósur. Ég fæ mér þetta sinnep út á pylsu í brauði þá sjaldan að við látum þær eftir okkur.