11. júlí 2022

Kjötsúpa

Kjötsúpa er sígildur heimilismatur á Íslandi. Þó matreiðslan sé einföld finnst mér hún svolítil handavinna, mikið sem þarf að skræla og brytja niður. En það er hægt að sitja við það, hlusta á eitthvað skemmtilegt á meðan eða sameina krafta annarra viðstaddra og spjalla á meðan. Eða njóta kyrrðarinnar ef maður er einn í kotinu. Kjötsúpa er í eðli sínu réttur án viðbætts sykurs. Nema...., já, þetta "nema". Ef maður vill bæta við súputening fyrir meira bragð, þá hefur mér ekki tekist að finna slíka án viðbætts sykurs. Þá þarf maður að gera upp við sig hvort maður lætur sig hafa það enda sykurinn í litlu magni. Ég vel þann kostinn.

Aðrir möguleikar eru að útbúa sitt eigið kraftsoð. Kjötsúpa sem vit er í er með kjöti á beinum og þaðan kemur mikið af bragðinu. Svo má ekki gleyma að sellerý, steinselja, laukur og hvítlaukur eru öflugir bragðgjafar. Einnig má sjóða vökvann svolítið niður áður en grænmetinu er bætt í.

Kjötsúpa finnst mér ekki vera árstíðabundinn matur heldur þvert á móti hentugt að elda hana líka að sumri og eiga þá tilbúinn mat í ísskápnum eða frystinum þegar mann langar í mat en nennir ómögulega að elda á fallegu sumarkvöldi. Það þarf nefnilega ekki alltaf að grilla. Það er líka hentugt að geyma kjötsúpu í stökum skömmtum til að grípa til ef maður vill hafa stjórn á mataræðinu og fá sér eitthvað hollt og nærandi í hádeginu, hvort heldur er sem nesti eða heima við. Ég set ekki inn uppskrift af kjötsúpu því það er til nóg af þeim á veraldarvefnum. Hér eru nokkrar kjötsúpuuppskriftir.