![]() |
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir |
Þessi vefur geymir uppskriftir, reynslusögur og fróðleik varðandi mat
og matreiðslu sem inniheldur ekki viðbættan sykur. Hér er áherslan á daglegt mataræði heimilisins, venjulegan mat en ekki einhvers konar kúr eða átaksrétti. Tilgangurinn er að halda þessum upplýsingum til haga fyrir sjálfa mig því ég man oft ekkert hvað og hvernig ég gerði eitthvað sem kom svo vel út.
Ég tók viðbættan
sykur að mestu úr mínu mataræði þann 15. nóvember 2018. Ég vildi breyta mataræðinu til frambúðar og velti fyrir mér hvort ég gæti gert
eitthvað eitt sem myndi öllu breyta, eins konar silfurskothylki sem
vinnur á vampírum og annarri óáran. Þá laust þessari hugmynd niður í
kollinum á mér: Sleppa viðbættum sykri sem innihaldsefni því það myndi
hafa víðtæk áhrif á fæðuval og matreiðslu. Þegar á hólminn var
komið reyndist ég hafa rétt fyrir mér í því og hef ég lifað samkvæmt þessu í rúmlega þrjú og hálft ár. Annað sem vóg jafn
þungt eru slæm áhrif viðbætts sykurs á líkamsstarfsemi og heilsufar.
Það verður að segjast eins og er að viðbættur sykur er margt fleira en strásykur. Hér er fræðileg samantekt Öddu Bjarnadóttur næringarfræðings á 56 sykurgerðum viðbætts sykurs. Viðbættur sykur er hvers kyns sykur sem bætt er við matvöru og er ekki hluti af kolvetnum hennar frá náttúrunnar hendi. Til dæmis er sykur sem kolvetni í tómötum og hann er ekki viðbættur sykur. Ef tómatar eru útbúnir í til dæmis tómatsósu og sykri af einhverju tagi samkvæmt listanum hennar Öddu hér ofar er bætt við í matreiðslunni þá telst sá sykur viðbættur. En þetta er ekki alveg svona einfalt því er búið er að fjarlægja trefjahluta fæðutegundarinnar eins og í ávaxtasafa telst safinn vera viðbættur sykur í mataræðinu því þá er aðeins sykurinn eftir af kolvetnunum. Maður á því að borða appelsínuna frekar en að fá sér glas af "hreinum" appelsínusafa.
Þessi lífsstíll minn byggir einfaldlega á því að sneiða hjá matvælum sem innihalda viðbættan sykur. Ég hef ekki lagst í víking til að leita logandi ljósi að einhverju til að nota í staðinn fyrir sykur eins og sykur væri nauðsynjavara til að geta borðað það sama og venjulega. Tilgangur minn var nefnilega ekki sá að halda áfram að borða eins og ég gerði. Vissulega nota ég annað en viðbættan sykur til að bæta sætu í matargerð enda eru til ýmis ágætis náttúruleg sætuefni sem eru hvorki sykur né gervisykur og hægt er að nota í hófi.
Hvað á ég við með hafa tekið
viðbætta sykurinn út "að mestu"? Lífstílsbreytingin hvílir á því
jarðbundna raunsæi að sumt er einfaldlega með viðbættum sykri og stundum
bjóða aðstæður ekki upp á að komast hjá því að borða það sem í boði er, til dæmis á ferðalögum og í heimboðum hjá öðrum. Þá skiptir hófsemin öllu
máli og jafnvel að sleppa því að borða eitthvað, til dæmis sultu með
lambasteikinni, eftirréttinum eða sykraða gosinu. Sumt er ekki með
viðbættum sykri yfirhöfuð og þá er um að gera að fá sér það frekar og
hafa slíkan mat á boðstólum dags daglega.
Eftir ýmsar
tilraunir í eldhúsinu hef ég líka komist að þeirri niðurstöðu að sumt
gengur ekki almennilega án sykurs, til dæmis súkkulaðiterta heimilisins. Án sykurs breyttist súkklaðitertan í endurtekin vonbrigði. En uppskriftin
þoldi að sykurmagnið væri minnkað um þriðjung án þess að það kæmi niður á
áferð og bragði. Einnig fékk ég mér minni tertuform svo deiginu er
skipt í tvær kökur svo þá er helmingi minna af köku í boði. Aukakakan
fer í frystinn því aukakökur eru aldrei vandamál í lífinu. Svona sætmeti
er svo bara í boði um einu sinni í mánuði. Þetta er það sem hófsemin snýst um, sjaldan og lítið í einu.
Lífsstíllinn minn snýst ekki um að hafa svindldaga. Þá fer fókusinn á svindlið og maður missir sjónar á tilganginum. Ef ég borða sykur, þá borða ég sykur. Ef mig langar verulega mikið í tiltekið sykrað súkkulaði eða ávaxtahlaup, nú, þá bara fæ ég mér það en sárasjaldan og læt það ekki eftir mér í hvert sinn sem mér dettur það í hug sem gerist æ sjaldnar. Held ég 😉. En áherslan er alltaf skýr hjá mér: að sneyða hjá viðbættum sykri.
Annað leynivopn á þessari vegferð er að breyta viðhorfi sínu. Ef óvæntan gest ber að garði er hægt að bjóða upp á hrökkbrauð með hnetusmjöri og eplasneiðum með kaffinu. Það er að segja ef gesturinn kærir sig yfirhöfuð um eitthvað matarkyns. Ég einfaldlega spyr og ef svarið er nei, þá fáum við okkur bara eitthvað að drekka, vatn, kaffi eða te.
Fyrirvarar: Þetta blogg er ekki kostað ef hagsmunaðilum í matvælaframleiðslu eða -sölu. Ég hef sjálf engra hagsmuna að gæta þegar ég bendi á tiltekin vörumerki matvöru. Það gegnir þeim tilgangi einum að muna sjálf hvað reyndist vel og hvar það fékkst. Ég er leikmaður á sviði lífsstíls, heilsufars og næringar og mun því ekki ráðleggja nokkrum eitt né neitt í þeim efnum enda er tilgangur þessa vefs að halda utan um upplýsingar fyrir sjálfa mig og safna saman fróðleik sem styður mig á þessari vegferð. Þau sem vilja nýta sér efni vefsins gera það á eigin ábyrg. En vonandi finnst ykkur maturinn góður og gefa ykkur hugmyndir í amstri hversdagsins.