Þessa uppskrift af pizzubotni hef ég notað í áratugi. Deigið nægir á heila ofnbökunarplötu svo uppskriftin hentar líka í 2 miðlungs hringlaga botna
Uppskrift
Innihald
300 gr hveiti
1 msk instant ger
1/4 tsk salt
1, 5 dl vatn (38°C)
2 msk olívuolía
1 egg
Aðferð
- Blanda saman hveiti, geri og salti í skál.
- Bæta vatni, olíu og eggi í skálina.
- Hræra öllu saman og hnoða síðan í 10-13 mínútur.
- Setja hreint viskustykki eða disk yfir skálina.
- Láta deigið lyftast í 30-40 mínútur (fer eftir hitastigi innanhúss).
- Nú passar að kveikja á bakaraofninum og hita í 220°C.
- Setja örlítið hveiti á borðplötu og moka deiginu varlega í einu lagi út skálina yfir á borðplötuna. Varast að kremja loft úr deiginu við þennan flutning. Ef skipta á deiginu í tvo botna er það gert núna.
- Þrýsta með öllum fingrum 2-3 sinnum á deigið svo úr verði þykk skífa. Þetta losar svolítið af lofti úr deiginu. Það á ekki að hnoða deigið aftur. Leggja viskustykki yfir deigið og láta deigið hvíla í 5 mínútur. Hvíldin gerir það auðveldara að fletja deigið út án þess að það skreppi jafnóðum aftur saman. Upplagt að rífa ostinn á meðan.
- Fletja deigið út með kökukefli. Reyna að rúlla eins sjaldan yfir og hægt er og ekki þrýsta fast með keflinu.
- Flytja deigið yfir á bökunarplötu sem klædd er með bökunarpappír. En það má líka fletja deigið út á plötunni eða á pappírnum til að auðvelda flutninginn.
- Sósa, ostur og fylling sett á pizzuna.
- Pizzunni skellt í ofninn þegar 20-25 mínútur eru liðnar síðan deigið var flatt út.
- Baka í 13-15 mínútur. Það fer svolítð eftir þykkt botnsins og magni áleggsins.
Ég læt hrærivélina um að hnoða deigið en það er ekkert að því að hnoða í höndunum nema úthaldið skorti. Það þarf ekki krafta til að hnoða þetta deig heldur er það tæknin sem skiptir máli. Hnoðun snýst ekki um að kreista deigið eins og ég hélt einu sinni heldur að teygja á því. Þannig byggir glútenið upp þanþolið og bindingu lofts sem gerir brauðið mjúkt og loftmikið eftir bakstur.
Þegar álegginu er raðað á pizzuna finnst mér betra að hafa minna á því í miðjunni svo deigið geti betur lyft sér og botninn bakist jafnar. Auðvitað er best ef maður kemst upp á lag með að fletja deigið út með höndunum í stað þess að nota kökukefli en ég kann það ekki. Þá verða kantarnir þykkari sem sem heppilegra fyrir jafnari bökun. Þá má líka leika sér með að bera kryddolíu á kantana strax og pizzan kemur úr ofninum.
Það má minnka þessa uppskrift með smávægilegum breytingum:
200 gr hveiti
2 tsk instant ger
1/4 tsk salt (tæplega)
1 dl vatn (38°C)
1 msk olívuolía
1 egg