19. febrúar 2023

Pizza - pizzubotn

Þessa uppskrift af pizzubotni hef ég notað í áratugi. Deigið nægir á heila ofnbökunarplötu svo uppskriftin hentar líka í 2 miðlungs hringlaga botna

Uppskrift

Innihald

300 gr hveiti
1 msk instant ger
1/4 tsk salt
1, 5 dl vatn (38°C)
2 msk olívuolía
1 egg

Aðferð

  • Blanda saman hveiti, geri og salti í skál.
  • Bæta vatni, olíu og eggi í skálina.
  • Hræra öllu saman og hnoða síðan í 10-13 mínútur.
  • Setja hreint viskustykki eða disk yfir skálina.
  • Láta deigið lyftast í 30-40 mínútur (fer eftir hitastigi innanhúss).
  • Nú passar að kveikja á bakaraofninum og hita í 220°C.
  • Setja örlítið hveiti á borðplötu og moka deiginu varlega í einu lagi út skálina yfir á borðplötuna. Varast að kremja loft úr deiginu við þennan flutning. Ef skipta á deiginu í tvo botna er það gert núna.
  • Þrýsta með öllum fingrum 2-3 sinnum á deigið svo úr verði þykk skífa. Þetta losar svolítið af lofti úr deiginu. Það á ekki að hnoða deigið aftur. Leggja viskustykki yfir deigið og láta deigið hvíla í 5 mínútur. Hvíldin gerir það auðveldara að fletja deigið út án þess að það skreppi jafnóðum aftur saman. Upplagt að rífa ostinn á meðan.
  • Fletja deigið út með kökukefli. Reyna að rúlla eins sjaldan yfir og hægt er og ekki þrýsta fast með keflinu.
  • Flytja deigið yfir á bökunarplötu sem klædd er með bökunarpappír. En það má líka fletja deigið út á plötunni eða á pappírnum til að auðvelda flutninginn.
  • Sósa, ostur og fylling sett á pizzuna.
  • Pizzunni skellt í ofninn þegar 20-25 mínútur eru liðnar síðan deigið var flatt út.
  • Baka í 13-15 mínútur. Það fer svolítð eftir þykkt botnsins og magni áleggsins.

Ég læt hrærivélina um að hnoða deigið en það er ekkert að því að hnoða í höndunum nema úthaldið skorti. Það þarf ekki krafta til að hnoða þetta deig heldur er það tæknin sem skiptir máli. Hnoðun snýst ekki um að kreista deigið eins og ég hélt einu sinni heldur að teygja á því. Þannig byggir glútenið upp þanþolið og bindingu lofts sem gerir brauðið mjúkt og loftmikið eftir bakstur.

Þegar álegginu er raðað á pizzuna finnst mér betra að hafa minna á því í miðjunni svo deigið geti betur lyft sér og botninn bakist jafnar. Auðvitað er best ef maður kemst upp á lag með að fletja deigið út með höndunum í stað þess að nota kökukefli en ég kann það ekki. Þá verða kantarnir þykkari sem sem heppilegra fyrir jafnari bökun. Þá má líka leika sér með að bera kryddolíu á kantana strax og pizzan kemur úr ofninum.

Það má minnka þessa uppskrift með smávægilegum breytingum:  

200 gr hveiti
2 tsk instant ger
1/4 tsk salt (tæplega)
1 dl vatn (38°C)
1 msk olívuolía
1 egg

31. janúar 2023

Gulrótarsúpa


Það hefur lengi verið stóra planið að elda súpur. En það hefur verið lítið um efndir hjá mér. Sjáum hvað setur. Þessi gulrótarsúpa er bragðmikil og hressandi, gleðjandi á litinn og flauelsmjúk á tungu.

Uppskrift fyrir 4. Magn 8 d af súpu.

Innihald

400 gr gulrætur
1 paprika, rauð eða gul
1 msk ólívuolía
¼ tsk cumin
1/8 tsk cayenne pipar
1/8 tsk karrý
1 hvítlauksrif
½ lítri kjúklingabeinasoð eða hálfur soðteningur
¼ tsk salt, ef þarf
1 msk kalt smjör

Aðferð

  1. Gulrætur flysjaðar og skornar á ská í ½ cm þykkar sneiðar.
  2. Paprika hreinsuð og skorin í bita.
  3. Hvítlaukur rifinn eða skorinn smátt.
  4. Olía hituð á miðlungshita og laukurinn látinn malla í nokkrar mínútur þar til hann mýkist. Varast að láta laukinn brúnast.
  5. Kryddunum og hvítlauknum bætt í og steikt í 30 sekúndur á meðan hrært er rólega í.
  6. Gulrótum og papriku bætt í og látið mýkjast í 2 mínútur, hræra í af og til.
  7. Soði bætt í pottinn og suðunni komið upp. Smakka á soðinu og salta ef þess þarf.
  8. Sjóða súpuna í 20-25 mínútur eða þar til gulræturnar eru orðnar meyrar.
  9. Súpan látin kólna í 15 mínútur og þá ausið í blandara til að mauka hana eða maukuð með töfrasprota í pottinum.
  10. Smjörinu bætt í og maukað stutt saman við.
 

Smjörið gerir súpuna kremkenndari og bætir áferðina án þess að trufla litinn. Mér finnst gott að bæta klípu af sýrðum rjóma út á súpuskammtinn minn í disknum en súpan er alveg jafngóð án þess. Ef enginn er blandarinn til skal ekki gráta það heldur borða súpuna eins og hún kemur fyrir. Þetta er ódýr súpa í eðli sínu. En það má gera hana enn ódýrari með því að sleppa paprikunni og nota þá 1 tsk af paprikudufti ef maður vill. Einnig má bæta í hana kókosmjólk eða kókosrjóma sem hækkar þá hráefnisverðið.
 


23. október 2022

Gulrótarvöfflur


 

Vöfflur geta verið hvort heldur er sætubiti með kaffinu eða brauðmeti í máltíð. Ég datt niður á matarlegar gulrótarvöfflur sem Elísabet Ósk Sigurðardóttir birti á Instagram. Ég gerði þær að mínum með nokkrum breytingum. Mér finnst gulrótarkökur mjög góðar, sérstaklega vegna rjómaostakremsins. Þessar gulrótarvöfflur eru hálfgerð meinlætaútgáfa í samanburði við slíka köku. En þær eru samt málamiðlun sem hægt er að lifa góðu lífi með.

Uppskrift, 4-5 vöfflur

Innihald

1 dl hveiti
1 dl heilhveiti
1/2 dl haframjöl
1/2 tsk lyftiduft
1/4 tsk kanill
1/4 tsk múskat
1/4 tsk salt
1 msk eritrytol með stevíu
2 egg
1 1/3 dl mjólk
2 meðalstórar gulrætur

Aðferð

  1. Rífa gulræturnar á fínu rifjárni.
  2. Blanda þurrefnum saman.
  3. Setja egg, olíu, mjólk og gulrætur út í þurrefnin og hræra saman.
  4. Steikt í belgísku vöfflujárni (5 mínútur í mínu járni).

Til að fá kökutilfinninguna smurði ég mína vöfflu með rjómaosti. Það má sem best setja ávaxtamauk þar ofan á. Ég gæti líka hugsað mér að fá mér gulrótarvöfflu með þeyttum rjóma og bananasneiðum.

18. september 2022

Egg og grænmeti

Það er einfalt og þægilegt að fá sér eggjahræru með grænmeti. Hér reif ég grænmeti (rauðkál, papriku, agúrku) á mandolínjárni. Það losnar svo mikið um safann að skera grænmetið þunnt og því fannst mér ekki þurfa neitt út á það. Það er líka fallegt að blanda svona litríku, þunnskornu grænmeti saman í ferskt salat með öðrum mat. Mér finnst auðveldara að borða mikið af fersku grænmeti sem er þunnt skorið en þegar það er í bitum eða þykkari sneiðum.

Með grænmetinu hrærði ég 2 egg með 2 msk af rjóma á pönnu. Ég nota smjör á pönnuna þegar ég hræri egg og salta eggin og krydda rétt í lokin.

Svona máltíð hentar á hvaða tíma dags sem er og sem nesti.

12. september 2022

Lax með pestó

 

Lax baka ég alltaf í ofni. Ég kaupi ýmist frosinn lax í bitum eða ferskt flak. 500 grömm af ferskum fiski nægir okkur fyrir þrjá. Þó lax sé í dýrari kantinum þá finnst mér annað dýraprótín hafa færst nær honum í verði svo ég er hætt að fá svitakast þó laxinn fari aðra hvora viku í innkaupakörfuna. Hagsýnin felst þá í að ódýru meðlæti og að elda fiskinn með því sem er til í skápunum. Ég sit líka fyrir laxi á lækkuðu verði og set þá fiskinn í frystinn.

Uppskrift fyrir 3

Innihald

500 gr lax
1 1/2 msk pestó
2 sólþurrkaðir tómatar
1 msk brauðmylsna
Ólívuolía
Salt

Aðferð

  1. Stilla ofninn á 180 gráður.
  2. Brytja sólþurrkuðu tomatana smátt og hræra saman við pestóið og brauðmylsnuna.
  3. Klæða eldfast mót með bökunarpappír til að auðvelda uppvaskið síðar eða smyrja þunnu lagi af ólívuolíu á botn mótsins.
  4. Leggja laxinn með roðið niður í eldfasta mótið.
  5. Smyrja laxinn að ofan með örlítilli ólívuolíu.
  6. Salti laxinn örlítið. Það er salt í pestóinu og tómötunum.
  7. Dreifa maukblöndunni yfir laxinn.
  8. Setja laxinn í ofninn og baka í  20 til 45 mínútur (eldunartíminn er breytilegur, fer eftir stærð og þykkt flaksins og hvort það er ferskt eða frosið).

Þegar ég elda frosinn lax þá set ég hann frosinn í ofninn. Mér finnst það mjög þægileg og fljótleg eldamennska. Það er líka hentugt að eiga frosinn lax í frystinum þegar gleymist að hugsa fyrir kvöldmat. Mér finnst þetta líka frábær lausn þegar ég er andlaus eða vil ekki hafa mikið fyrir matnum. Þegar eldaður er frosinn lax er ágætt að athuga eftir hálftíma hvort fiskurinn er soðinn með því að taka vöðvann aðeins í sundur um miðbikið með tveimur göfflum.

Meðlæti getur verið mjög einfalt, jafnvel afgangar af meðlæti frá fyrri máltíðum. Oft hef ég ofnbakað blómkál með sem fer þá á bökunarplötu fyrir neðan ofnfasta mótið eða gufusýð brokkólí. Mér fannst það alltaf svo fjarlæg tilþrif að gufusjóða grænmeti, eitthvað of fágað fyrir mig. En svo lét ég til leiðast nýlega og féll kylliflöt fyrir aðferðinni. Ef til er pastapottur með innfelldu sigti er hentugt að nota hann.


4. september 2022

Steikt hvítkál


Af einhverjum ástæðum hef ég ekki kynnst elduðu hvítkáli öðruvísi en soðnu með kjötfarsbollum. Mér finnst hvítkálið gott þannig en elda þetta eiginlega aldrei því ég nenni ekki að gera karrýsósuna sem mér finnst ómissandi með kjötbollunum og kálinu.

Nú hefur staðið til að borða kál oftar og ríflega af því. Ég hef gert hrásalat og er ánægð með það. En mig langar í fleiri möguleika því hvítkál er með því ódýrasta grænmeti sem fæst, það er saðsamt og holl næring. Ég vissi að það væri gjarnan pönnusteikt og minnir að ég hafi einhvern tíma gert það þó ekki hafi það verið eftirminnilegt.

Ég lagði því í smá óvissuferð í gær og pönnusteikti hvítkál í strimlum án uppskriftar með það eina leiðarljós að nota þau krydd sem mér líkar. Ég var eitthvað varfærin og notaði bara hálft kálhöfuð. Það hvarf eins og dögg fyrir sólu með fiskinum ofan í þrjá fullorðna. Þegar maðurinn minn spurði hvort hann mætti klára það litla sem eftir var þá varð ég að rifja upp auglýsinguna: "Elskarðu einhvern nógu mikið til að gera honum síðasta Rolo molann þinn?". Auðvitað, því kálið var komið í ausuna og hann át það. Eina sem ég lét út úr mér var að ég þyrfti að elda meira kál næst.

Steikta hvítkálið var prýðilegt með ofnbakaða fiskunum í pestósósunni sem mun fljótlega koma inn á bloggið. En nú er það hvítkálið sem á sviðið.

Uppskrift að meðlæti fyrir 3.

Innihald

600 gr hvítkál
1 meðalstór gulur laukur
1/2 rautt chili, saxað smátt eða 1/4 tsk chilliflögur
1/2 cm engiferrót, rifin
1/4 tsk salt
Svartur pipar
1-2 msk smjör

Aðferð

  1. Skera hvítkál í 1 cm breiða strimla.
  2. Skera laukinn í þunna strimla.
  3. Bræða smjör á meðalheitri pönnu.
  4. Setja engifer og chili á pönnuna, hræra aðeins til að losa engiferið í sundur.
  5. Setja laukinn á pönnuna og hræra saman við smjörið stutt stund.
  6. Setja hvítkálið á pönnuna og hræra vel svo smjörið dreifist um hvítkálið.
  7. Strá kryddi yfir innihald pönnunnar.
  8. Hræra af og til í réttinum og velta þá hvítkálinu svo það taki allt lit. Það á ekki að brenna.
  9. Smakka eftir 5 mínútur og meta hvort kálið er nógu soðið fyrir eigin smekk. Ef ekki, þá steikja aðeins lengur þangað til manni finnst nóg soðið.

Steikt hvítkál er prýðilegt meðlæti með ýmsum réttum og vel hægt að breyta bragði þess með vali á kryddi. Ég gæti vel hugsað mér hvítkál með karrýkryddi. Ef kálið er skorið í mjög þunna strimla þá mun rétturinn minna meira á núðlur. Það má sem best setja annað grænmeti með, til dæmis gulrætur í strimlum eða rifnar. Mig mundi líka langa í steikt hvítkál sem meðlæti með hrærðum eggjum.

Ég sagði ofar að hvítkál væri ódýrt. Ég fann kassakvittun frá 10. ágúst 2022 og þá kostaði kílóið af íslensku, nýuppteknu hvítkáli 360 krónur. Kálhöfuðið var rétt rúmt kíló og ég notaði helminginn af því í þennan rétt fyrir þrjá. Kálið kostaði í því 180 krónur í réttinn eða 60 krónur á mann. Laukur er líka ódýr. Ef fersku engifer og fersku chilli er sleppt og aðeins þau krydd sem þegar eru til í skápnum, þá er þetta mjög hagkvæmur réttur fyrir budduna.

31. ágúst 2022

Kartöfluflögur - uppskrift

Verksmiðjuframleiddar kartöfluflögur innihalda yfirleitt viðbættan sykur. Ef þær eru eingöngu með salti er oftast hægt að finna slíkar án viðbætts sykur í flestum verslunum. Ég borða saltaðar flögur til dæmis frá Lays, Maruud og Kims. Kartöfluflögur ætti ekki að borða oft og ekki mikið af þeim. Vandamálið sem ég glími við er hversu mikið er nógu lítið. Til að átta sig á magni getur verið sniðugt að prófa að útbúa þær sjálfur frá grunni í örbylgjuofninum. Þá opnast líka ótakmarkaðir möguleikar á að bragðbæta kartöflurnar með því sem hugurinn girnist án þess að bæta við sykri. Mér finnst örbylgjusteiktar kartöfluflögur mjög góðar. Efst í færslunni er myndir af flögunum mínum.

Kokkurinn John hefur fullkomnað þessa matargerð í örbylgjuofni. Hér er myndband þar sem hann kennir handbrögðin.

 
 
Hér er uppskriftin uppskrifuð hjá John.
 
Í mínum örbylgjuofni er mátulegt að geisla þær á 600W í þrjár til fjórar mínútur Ég sný flögunum eftir fyrstu tvær mínútunar og sé svo til hversu mikinn tíma þær þurfa eftir það. Hver og einn verður að prófa sig áfram með sinn örbylgjuofn.