Lax baka ég alltaf í ofni. Ég kaupi ýmist frosinn lax í bitum eða ferskt flak. 500 grömm af ferskum fiski nægir okkur fyrir þrjá. Þó lax sé í dýrari kantinum þá finnst mér annað dýraprótín hafa færst nær honum í verði svo ég er hætt að fá svitakast þó laxinn fari aðra hvora viku í innkaupakörfuna. Hagsýnin felst þá í að ódýru meðlæti og að elda fiskinn með því sem er til í skápunum. Ég sit líka fyrir laxi á lækkuðu verði og set þá fiskinn í frystinn.
Uppskrift fyrir 3
Innihald
500 gr lax
1 1/2 msk pestó
2 sólþurrkaðir tómatar
1 msk brauðmylsna
Ólívuolía
Salt
Aðferð
- Stilla ofninn á 180 gráður.
- Brytja sólþurrkuðu tomatana smátt og hræra saman við pestóið og brauðmylsnuna.
- Klæða eldfast mót með bökunarpappír til að auðvelda uppvaskið síðar eða smyrja þunnu lagi af ólívuolíu á botn mótsins.
- Leggja laxinn með roðið niður í eldfasta mótið.
- Smyrja laxinn að ofan með örlítilli ólívuolíu.
- Salti laxinn örlítið. Það er salt í pestóinu og tómötunum.
- Dreifa maukblöndunni yfir laxinn.
- Setja laxinn í ofninn og baka í 20 til 45 mínútur (eldunartíminn er breytilegur, fer eftir stærð og þykkt flaksins og hvort það er ferskt eða frosið).
Þegar ég elda frosinn lax þá set ég hann frosinn í ofninn. Mér finnst það mjög þægileg og fljótleg eldamennska. Það er líka hentugt að eiga frosinn lax í frystinum þegar gleymist að hugsa fyrir kvöldmat. Mér finnst þetta líka frábær lausn þegar ég er andlaus eða vil ekki hafa mikið fyrir matnum. Þegar eldaður er frosinn lax er ágætt að athuga eftir hálftíma hvort fiskurinn er soðinn með því að taka vöðvann aðeins í sundur um miðbikið með tveimur göfflum.
Meðlæti getur verið mjög einfalt, jafnvel afgangar af meðlæti frá fyrri máltíðum. Oft hef ég ofnbakað blómkál með sem fer þá á bökunarplötu fyrir neðan ofnfasta mótið eða gufusýð brokkólí. Mér fannst það alltaf svo fjarlæg tilþrif að gufusjóða grænmeti, eitthvað of fágað fyrir mig. En svo lét ég til leiðast nýlega og féll kylliflöt fyrir aðferðinni. Ef til er pastapottur með innfelldu sigti er hentugt að nota hann.