23. október 2022

Gulrótarvöfflur


 

Vöfflur geta verið hvort heldur er sætubiti með kaffinu eða brauðmeti í máltíð. Ég datt niður á matarlegar gulrótarvöfflur sem Elísabet Ósk Sigurðardóttir birti á Instagram. Ég gerði þær að mínum með nokkrum breytingum. Mér finnst gulrótarkökur mjög góðar, sérstaklega vegna rjómaostakremsins. Þessar gulrótarvöfflur eru hálfgerð meinlætaútgáfa í samanburði við slíka köku. En þær eru samt málamiðlun sem hægt er að lifa góðu lífi með.

Uppskrift, 4-5 vöfflur

Innihald

1 dl hveiti
1 dl heilhveiti
1/2 dl haframjöl
1/2 tsk lyftiduft
1/4 tsk kanill
1/4 tsk múskat
1/4 tsk salt
1 msk eritrytol með stevíu
2 egg
1 1/3 dl mjólk
2 meðalstórar gulrætur

Aðferð

  1. Rífa gulræturnar á fínu rifjárni.
  2. Blanda þurrefnum saman.
  3. Setja egg, olíu, mjólk og gulrætur út í þurrefnin og hræra saman.
  4. Steikt í belgísku vöfflujárni (5 mínútur í mínu járni).

Til að fá kökutilfinninguna smurði ég mína vöfflu með rjómaosti. Það má sem best setja ávaxtamauk þar ofan á. Ég gæti líka hugsað mér að fá mér gulrótarvöfflu með þeyttum rjóma og bananasneiðum.