31. janúar 2023

Gulrótarsúpa


Það hefur lengi verið stóra planið að elda súpur. En það hefur verið lítið um efndir hjá mér. Sjáum hvað setur. Þessi gulrótarsúpa er bragðmikil og hressandi, gleðjandi á litinn og flauelsmjúk á tungu.

Uppskrift fyrir 4. Magn 8 d af súpu.

Innihald

400 gr gulrætur
1 paprika, rauð eða gul
1 msk ólívuolía
¼ tsk cumin
1/8 tsk cayenne pipar
1/8 tsk karrý
1 hvítlauksrif
½ lítri kjúklingabeinasoð eða hálfur soðteningur
¼ tsk salt, ef þarf
1 msk kalt smjör

Aðferð

  1. Gulrætur flysjaðar og skornar á ská í ½ cm þykkar sneiðar.
  2. Paprika hreinsuð og skorin í bita.
  3. Hvítlaukur rifinn eða skorinn smátt.
  4. Olía hituð á miðlungshita og laukurinn látinn malla í nokkrar mínútur þar til hann mýkist. Varast að láta laukinn brúnast.
  5. Kryddunum og hvítlauknum bætt í og steikt í 30 sekúndur á meðan hrært er rólega í.
  6. Gulrótum og papriku bætt í og látið mýkjast í 2 mínútur, hræra í af og til.
  7. Soði bætt í pottinn og suðunni komið upp. Smakka á soðinu og salta ef þess þarf.
  8. Sjóða súpuna í 20-25 mínútur eða þar til gulræturnar eru orðnar meyrar.
  9. Súpan látin kólna í 15 mínútur og þá ausið í blandara til að mauka hana eða maukuð með töfrasprota í pottinum.
  10. Smjörinu bætt í og maukað stutt saman við.
 

Smjörið gerir súpuna kremkenndari og bætir áferðina án þess að trufla litinn. Mér finnst gott að bæta klípu af sýrðum rjóma út á súpuskammtinn minn í disknum en súpan er alveg jafngóð án þess. Ef enginn er blandarinn til skal ekki gráta það heldur borða súpuna eins og hún kemur fyrir. Þetta er ódýr súpa í eðli sínu. En það má gera hana enn ódýrari með því að sleppa paprikunni og nota þá 1 tsk af paprikudufti ef maður vill. Einnig má bæta í hana kókosmjólk eða kókosrjóma sem hækkar þá hráefnisverðið.