31. ágúst 2022

Kartöfluflögur - uppskrift

Verksmiðjuframleiddar kartöfluflögur innihalda yfirleitt viðbættan sykur. Ef þær eru eingöngu með salti er oftast hægt að finna slíkar án viðbætts sykur í flestum verslunum. Ég borða saltaðar flögur til dæmis frá Lays, Maruud og Kims. Kartöfluflögur ætti ekki að borða oft og ekki mikið af þeim. Vandamálið sem ég glími við er hversu mikið er nógu lítið. Til að átta sig á magni getur verið sniðugt að prófa að útbúa þær sjálfur frá grunni í örbylgjuofninum. Þá opnast líka ótakmarkaðir möguleikar á að bragðbæta kartöflurnar með því sem hugurinn girnist án þess að bæta við sykri. Mér finnst örbylgjusteiktar kartöfluflögur mjög góðar. Efst í færslunni er myndir af flögunum mínum.

Kokkurinn John hefur fullkomnað þessa matargerð í örbylgjuofni. Hér er myndband þar sem hann kennir handbrögðin.

 
 
Hér er uppskriftin uppskrifuð hjá John.
 
Í mínum örbylgjuofni er mátulegt að geisla þær á 600W í þrjár til fjórar mínútur Ég sný flögunum eftir fyrstu tvær mínútunar og sé svo til hversu mikinn tíma þær þurfa eftir það. Hver og einn verður að prófa sig áfram með sinn örbylgjuofn.

29. ágúst 2022

Pesto


Þetta pestó frá danska fyrirtækinu Urtekram er án viðbætts sykur. Auðvitað, hugsar þú kannski, en nei, ekki auðvitað. Sumir framleiðendur setja sykur í pestóið. Þetta keypti ég í Krónunni og kostaði það 459 krónur (18.8.2022).

25. ágúst 2022

Fiskur í ofni - 1

Þessi fiskréttur byggir á formúlu sem er þó engin geimsvísindi. Svona matreiðsla á fiski hefur með tímanum náð efri hæðum fjölbreytileikans hjá mér því formúlan fyrrnefnda byggir á því sem til er í skápunum hverju sinni.

Uppskrift fyrir fjóra

Innihald

600 gr þorskur
10 cm af sellerýstöngli
5 cm af græna hluta blaðlauks, skorið þvert á öll blöðin.
2 sólþurrkaðir tómatar
1/4 tsk Piri Piri kryddblanda (frá Pottagöldrum)
1 msk Mixed Herbs (frá Schwartz: timían, steinselja, majoram)
1/4 tsk fínt salt
1/2 tsk Dijon sinnep
1 1/2 msk sýrður rjómi
1 1/2 msk majónes

Aðferð:

  1. Brytja sellerý, blaðlauk og sólþurrkaða tómata smátt. Setja í stóra skál.
  2. Setja kryddin, sinnepið, sýrða rjómann og majónesið í skálina og hræra öllu vel saman.
  3. Skera fiskinn í litla bita (u.þ.b á stærð við tvo munnbita hver bitai) og blanda saman við hin efnin í skálinni.
  4. Allt sett í smurt eldfast mót.
  5. Ofnbakað í opnu mótinu við 175°C í 30 mínútur.

Það má gera réttinn bragðsterkari með því að auka magn Piri Piri í kryddblöndunni. Ég gerði þennan fyrst með hálfri teskeið af kryddinu og hann varð heldur sterkur fyrir minn smekk enda er ég ekki mikið fyrir eldpipar almennt.

Sósan er ekki mikil, rétt nær að festa grænmetið og kryddið við fiskinn. Fiskurinn lætur frá sér safa við eldun svo úr verður mátulega mikið útálát.

Að þessu sinni var meðlætið soðin hrísgrjón, soðnir brokkólístilkar og ferskt salat úr kínakáli, Lambhagasalati, papriku og gulrófu.



24. ágúst 2022

Sólþurrkaðir tómatar

Ótrúlegt en satt, þá er oft settur sykur í verksmiðjuframleidda sólþurrkaða tómata. Íslandsvinurinn Jamie Oliver gerir það þó ekki og bjargar þar með deginum hjá mér. Mér finnst sólþurrkaðir tómatar góðir til að gera bragðflóru ýmissa rétta flóknari og dýpri án þess að breyta lit matarins. Það er engin ástæða til að spara krúsina lengi því þeir geymast ekki von úr viti. Því finnst mér sniðugt að nota þá í heita rétti, ferskt salat, í brauðbakstur, í hummus og auðvitað í pastarétti.

19. ágúst 2022

Salsa



 Chunky Salsa frá Santa Maria er án viðbætts sykur. Hægt er að velja um þrjá bragðstyrkleika.

Þessar tortillur frá Santa Maria eru án viðbætts sykurs. Tortilla Original heita þær.

Vörurnar hef ég fengið í Fjarðarkaupum, Hagkaupum og Bónus.

 

 

Tortillur

Þessar tortillur frá Santa Maria, Tortilla Original, eru án viðbætts sykurs.


Sama fyrirtæki er einnig með salsa án viðbætts sykurs, Chunky Salsa. Hægt er að velja um þrjá bragðstyrkleika. Þessar vörur hef ég fengið í Fjarðarkaupum, Hagkaupum og Bónus.


12. ágúst 2022

Bollakökur í örbylgju

Stundum langar mann í köku. Núna! Þá er upplagt að skella þessum í örbylgjuofninn. Hér eru þær með bláberjum sem ég kaupi frosin. Athugið að oft eru frosnir ávextir með viðbættum sykri en það finnast vörumerki sem eru án hans. Kíkið á innihaldslýsingu pakkningarinnar.

Uppskrift - 2 bollakökur

Innihald:

2 msk möndlumjöl
1 msk malað kókosmjöl
1 msk kornótt sætuefni
¼ tsk lyftiduft
1 egg
1 tsk vanilluessens
1 msk bráðið smjör

Aðferð:

  1. Bræða smjörið og láta kólna aðeins.
  2. Blanda þurrefnum saman í skál.
  3. Þeyta eggið.
  4. Hræra smjöri og vanillu saman við eggið. 
  5. Hræra þurrefnum saman við egghræruna.
  6. Setja í smurðar bökunarskálar sem mega fara í örbylgjuofn.
  7. Setja í örbylgjuofn á 900W í 1 mínútu.
  8. Látið kólna í skálunum.

Ég setti 5-6 þiðnuð bláber í holu í miðju hvorrar köku áður ég geislaði þær í örbylgjuofninum. Svona litu þær út eftir baksturinn. Gott er að gæða sér á þessum kökum með þeyttum rjóma.


Sætuefnið sem ég nota hér er frá Good Good, "Granulated Sweet Like Sugar" sem er blanda af erythritoli og stevíu.


Uppskriftina fann ég hjá SugarFree Londoner.