18. september 2022

Egg og grænmeti

Það er einfalt og þægilegt að fá sér eggjahræru með grænmeti. Hér reif ég grænmeti (rauðkál, papriku, agúrku) á mandolínjárni. Það losnar svo mikið um safann að skera grænmetið þunnt og því fannst mér ekki þurfa neitt út á það. Það er líka fallegt að blanda svona litríku, þunnskornu grænmeti saman í ferskt salat með öðrum mat. Mér finnst auðveldara að borða mikið af fersku grænmeti sem er þunnt skorið en þegar það er í bitum eða þykkari sneiðum.

Með grænmetinu hrærði ég 2 egg með 2 msk af rjóma á pönnu. Ég nota smjör á pönnuna þegar ég hræri egg og salta eggin og krydda rétt í lokin.

Svona máltíð hentar á hvaða tíma dags sem er og sem nesti.

12. september 2022

Lax með pestó

 

Lax baka ég alltaf í ofni. Ég kaupi ýmist frosinn lax í bitum eða ferskt flak. 500 grömm af ferskum fiski nægir okkur fyrir þrjá. Þó lax sé í dýrari kantinum þá finnst mér annað dýraprótín hafa færst nær honum í verði svo ég er hætt að fá svitakast þó laxinn fari aðra hvora viku í innkaupakörfuna. Hagsýnin felst þá í að ódýru meðlæti og að elda fiskinn með því sem er til í skápunum. Ég sit líka fyrir laxi á lækkuðu verði og set þá fiskinn í frystinn.

Uppskrift fyrir 3

Innihald

500 gr lax
1 1/2 msk pestó
2 sólþurrkaðir tómatar
1 msk brauðmylsna
Ólívuolía
Salt

Aðferð

  1. Stilla ofninn á 180 gráður.
  2. Brytja sólþurrkuðu tomatana smátt og hræra saman við pestóið og brauðmylsnuna.
  3. Klæða eldfast mót með bökunarpappír til að auðvelda uppvaskið síðar eða smyrja þunnu lagi af ólívuolíu á botn mótsins.
  4. Leggja laxinn með roðið niður í eldfasta mótið.
  5. Smyrja laxinn að ofan með örlítilli ólívuolíu.
  6. Salti laxinn örlítið. Það er salt í pestóinu og tómötunum.
  7. Dreifa maukblöndunni yfir laxinn.
  8. Setja laxinn í ofninn og baka í  20 til 45 mínútur (eldunartíminn er breytilegur, fer eftir stærð og þykkt flaksins og hvort það er ferskt eða frosið).

Þegar ég elda frosinn lax þá set ég hann frosinn í ofninn. Mér finnst það mjög þægileg og fljótleg eldamennska. Það er líka hentugt að eiga frosinn lax í frystinum þegar gleymist að hugsa fyrir kvöldmat. Mér finnst þetta líka frábær lausn þegar ég er andlaus eða vil ekki hafa mikið fyrir matnum. Þegar eldaður er frosinn lax er ágætt að athuga eftir hálftíma hvort fiskurinn er soðinn með því að taka vöðvann aðeins í sundur um miðbikið með tveimur göfflum.

Meðlæti getur verið mjög einfalt, jafnvel afgangar af meðlæti frá fyrri máltíðum. Oft hef ég ofnbakað blómkál með sem fer þá á bökunarplötu fyrir neðan ofnfasta mótið eða gufusýð brokkólí. Mér fannst það alltaf svo fjarlæg tilþrif að gufusjóða grænmeti, eitthvað of fágað fyrir mig. En svo lét ég til leiðast nýlega og féll kylliflöt fyrir aðferðinni. Ef til er pastapottur með innfelldu sigti er hentugt að nota hann.


4. september 2022

Steikt hvítkál


Af einhverjum ástæðum hef ég ekki kynnst elduðu hvítkáli öðruvísi en soðnu með kjötfarsbollum. Mér finnst hvítkálið gott þannig en elda þetta eiginlega aldrei því ég nenni ekki að gera karrýsósuna sem mér finnst ómissandi með kjötbollunum og kálinu.

Nú hefur staðið til að borða kál oftar og ríflega af því. Ég hef gert hrásalat og er ánægð með það. En mig langar í fleiri möguleika því hvítkál er með því ódýrasta grænmeti sem fæst, það er saðsamt og holl næring. Ég vissi að það væri gjarnan pönnusteikt og minnir að ég hafi einhvern tíma gert það þó ekki hafi það verið eftirminnilegt.

Ég lagði því í smá óvissuferð í gær og pönnusteikti hvítkál í strimlum án uppskriftar með það eina leiðarljós að nota þau krydd sem mér líkar. Ég var eitthvað varfærin og notaði bara hálft kálhöfuð. Það hvarf eins og dögg fyrir sólu með fiskinum ofan í þrjá fullorðna. Þegar maðurinn minn spurði hvort hann mætti klára það litla sem eftir var þá varð ég að rifja upp auglýsinguna: "Elskarðu einhvern nógu mikið til að gera honum síðasta Rolo molann þinn?". Auðvitað, því kálið var komið í ausuna og hann át það. Eina sem ég lét út úr mér var að ég þyrfti að elda meira kál næst.

Steikta hvítkálið var prýðilegt með ofnbakaða fiskunum í pestósósunni sem mun fljótlega koma inn á bloggið. En nú er það hvítkálið sem á sviðið.

Uppskrift að meðlæti fyrir 3.

Innihald

600 gr hvítkál
1 meðalstór gulur laukur
1/2 rautt chili, saxað smátt eða 1/4 tsk chilliflögur
1/2 cm engiferrót, rifin
1/4 tsk salt
Svartur pipar
1-2 msk smjör

Aðferð

  1. Skera hvítkál í 1 cm breiða strimla.
  2. Skera laukinn í þunna strimla.
  3. Bræða smjör á meðalheitri pönnu.
  4. Setja engifer og chili á pönnuna, hræra aðeins til að losa engiferið í sundur.
  5. Setja laukinn á pönnuna og hræra saman við smjörið stutt stund.
  6. Setja hvítkálið á pönnuna og hræra vel svo smjörið dreifist um hvítkálið.
  7. Strá kryddi yfir innihald pönnunnar.
  8. Hræra af og til í réttinum og velta þá hvítkálinu svo það taki allt lit. Það á ekki að brenna.
  9. Smakka eftir 5 mínútur og meta hvort kálið er nógu soðið fyrir eigin smekk. Ef ekki, þá steikja aðeins lengur þangað til manni finnst nóg soðið.

Steikt hvítkál er prýðilegt meðlæti með ýmsum réttum og vel hægt að breyta bragði þess með vali á kryddi. Ég gæti vel hugsað mér hvítkál með karrýkryddi. Ef kálið er skorið í mjög þunna strimla þá mun rétturinn minna meira á núðlur. Það má sem best setja annað grænmeti með, til dæmis gulrætur í strimlum eða rifnar. Mig mundi líka langa í steikt hvítkál sem meðlæti með hrærðum eggjum.

Ég sagði ofar að hvítkál væri ódýrt. Ég fann kassakvittun frá 10. ágúst 2022 og þá kostaði kílóið af íslensku, nýuppteknu hvítkáli 360 krónur. Kálhöfuðið var rétt rúmt kíló og ég notaði helminginn af því í þennan rétt fyrir þrjá. Kálið kostaði í því 180 krónur í réttinn eða 60 krónur á mann. Laukur er líka ódýr. Ef fersku engifer og fersku chilli er sleppt og aðeins þau krydd sem þegar eru til í skápnum, þá er þetta mjög hagkvæmur réttur fyrir budduna.